Jafnréttisstofa fagnar auknum hlut kvenna

Jafnréttisstofa fagnar því að í nýafstöðnum kosningum hefur hlutur kynjanna jafnast umtalsvert í sveitarstjórnum landsins. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2002 var hlutur kvenna í sveitarstjórnum 31,5% en er nú 35,9%.  

Hlutur kvenna hefur aukist jafnt og þétt frá því 1978 og er nú svo komið að aðeins vantar herslumuninn að ná 40/60 skiptingu á landsvísu. Þá er nauðsynlegt að sambærileg kynjahlutföll verði í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum sveitarfélaganna og vonast Jafnréttisstofa til að svo verði.

Jafnréttismálin hafa verið mikið í umræðunni síðastliðin ár og hlýtur að teljast ljóst að virkt og öflugt starf að jafnréttismálum sé að skila sér í sveitarstjórnum. Í ljósi þessa vill Jafnréttisstofa sérstaklega benda á að nú eru aðeins fimm sveitarfélög á landinu þar sem engin kona á sæti, en fyrir kosningar voru sjö sveitarfélög í þeirri stöðu.

Jafnréttisstofa minnir á að öllum sveitarstjórnum ber skylda til að fela nefnd á vegum sveitarfélagsins umsjón með jafnréttismálum á kjörtímabilinu. Stofan mun í haust halda námskeið um jafnréttisstarf á þeim vettvangi fyrir nefndarmenn.

Meðfylgjandi mynd sýnir hlut kynjanna í sveitarstjórnum landsins frá 1958-2006.



Frekari upplýsingar gefur starfsfólk Jafnréttisstofu í síma 460-6200.