Jafnréttisstofa fagnar jafnri kynjaskiptingu í ríkisstjórn

Nú hefur tekið til starfa fyrsta ríkisstjórn Íslands sem stýrt er af konu og er við hæfi að sú ríkisstjórn sé skipuð körlum og konum til jafns. Jafnréttisstofa fagnar þessum tímamótum og óskar landsmönnum til hamingju með áfangann.
Eins og þjóðin veit tók Jóhanna Sigurðardóttir við forsætisráðherraembættinu í gær fyrst íslenskra kvenna. Þau ánægjulegu tíðindi komu í kjölfarið að ríkisstjórn hennar er skipuð jafn mörgum konum og körlum. Jafnréttisstofa vonar að þetta séu merki um breytta tíma og breyttar áherslur, þannig að jafnrétti kynjanna verði leiðarljós í starfi nýrrar ríkisstjórnar.