Jafnréttisstofa gefur út dagatal

Jafnréttisstofa gefur út dagatal í ár í tilefni þess að í haust eru liðin 15 ár frá kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Þar var samþykkt viðamikil framkvæmdaáætlun í málefnum kvenna – Pekingáætlunin – sem nær yfir tólf málaflokka, allt frá fátækt kvenna og stöðu þeirra á átakasvæðum til menntunar, heilsu og aukinna valda. Á dagatalinu eru mánuðir ársins 2010 nefndir eftir áhersluþáttum Pekingyfirlýsingarinnar auk þess sem helstu atriði framkvæmdaáætlunarinnar eru tilgreind. Peking ráðstefnan var sú fjórða í röð ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna og var yfirskrift hennar: Aðgerðir til að stuðla að jafnrétti, þróun og friði. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Mexíkó árið 1975 og markaði hún upphaf kvennaáratugar sameinuðu þjóðanna. Önnur ráðstefnan var í Kaupmannahöfn árið 1980 og sú þriðja í Nairóbí árið 1985, og lauk þar með áratugnum sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu tileinkað konum.

Árið 2010 er mikið afmælisár þegar litið er til áfanga á sviði jafnréttismála en þessi afmæli koma fram á dagatali Jafnréttisstofu. Sem dæmi um merk afmæli á árinu má nefna að Alþjóðlegur baráttudagur kvenna, 8. mars verður 100 ára, kosningaréttur kvenna til Alþingis verður 95 ára eða 90 ára eftir því hvort við miðum við 1915 eða 1920 þegar allar konur fengu kosningarétt. Kvenfélagasamband Íslands verður 80 ára og 30 ár verða liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Jafnréttisstofa verður 10 ára og áfram mætti telja upp merkisafmæli á árinu sem ýta vonandi undir fræðslu, umræður og aðgerðir til aukins jafnréttis kynjanna.

Dagatalið má nálgast hjá Jafnréttisstofu en einnig er mögulegt að nálgast það hér