Jafnréttisstofa heimsótti sveitarfélög á Austurlandi

Jafnréttisstofa heimsótti þrjú sveitarfélög á Austurlandi í síðustu viku, Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og Seyðisfjörð. Skipulag funda var með svipuðu sniði á öllum stöðum þar sem Jafnréttisstofa kynnti helstu skyldur sveitarfélaga samkvæmt jafnréttislögum, jafnframt því sem ýmis verkefni Jafnréttisstofu voru kynnt. Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu og Arnfriður Aðalsteinsdóttir verkefnisstjóri sáu um fræðsluna.
Á þriðjudag, 13. nóvember, var haldinn hádegisfundur með sveitarstjórnarfólki og starfsfólki stjórnsýslu og skóla á Egilsstöðum. Fundurinn, sem haldinn var í bæjarstjórnarsal fljótsdalshéraðs og var afar vel sóttur. Síðdegis á þriðjudag lá leiðin síðan í Fjarðabyggð, þar sem fundur var haldinn í húsakynnum Þekkingarnets Austurlands, ásamt því sem boðið var uppá þátttöku í gegnum fjarfund á Norðfirði. Loks var fundað á Seyðisfirði í hádegi miðvikudaginn 14. nóvember.

Í umræðum á öllum þessum fundum gafst gott tækifæri til að ræða þau mörgu mál sem snerta vinnu sveitarfélaga að jafnréttismálum. Allt frá ákvæðum laga um skipan í nefndir, framkvæmd og vinnu við jafnréttisáætlanir og þá lögboðnu skyldu sveitarfélaga að huga að sjónarmiðum kynja í stefnumótun og við ákvarðanatöku. Þá var sérstaklega rætt um skyldur sveitarfélaga til þess að tryggja jafnréttisfræðslu í skólum.

Jafnréttisstofa vill koma á framfæri bestu þökkum fyrir góðar móttökur og skemmtilegar umræður.