Jafnréttisstofa vinnur að launajafnrétti með portúgölskum stjórnvöldum

Frá árinu 2019 hefur Jafnréttisstofa í samstarfi við CITE, Jafnréttisnefnd Portúgals (e. The Commission for Equality in Labour and Employment), unnið að þróun stjórnunarstaðals um launajafnrétti og upplýsingakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir um jafnréttismál. Verkefnið sem kallast „Equality Platform and Standard“ er styrkt af Uppbyggingarsjóði EES, sem er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi.

Ráðgjöf Jafnréttisstofu hefur einkum falist í kynningu á íslenskri löggjöf og markmiðum í jafnlaunamálum. Þar hefur sérstaklega verið horft til reynslu Jafnréttisstofu af eftirliti vegna innleiðingar íslenska stjórnunarstaðalsins ÍST 85, um jafnlaunakerfi. Með innleiðingu staðalsins hafa fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Þann 20. september var portúgalska upplýsingakerfið um jafnréttismál kynnt notendum og við það tilefni tók Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur Jafnréttisstofu, þátt í hringborðsumræðum sem stjórnað var af Sara de Melo Rocha, fréttakonu CNN-Portúgal. Þá fór síðasti vinnufundur verkefnisins fram í Lissabon þann 21. september. Verkefninu lýkur síðar á þessu ári og lokaráðstefna verður haldin um miðjan nóvember.