Jafnréttistorg í Háskólanum á Akureyri

Þriðjudaginn 12. apríl kl. 12:00 fer fram jafnréttistorg í stofu M101 Sólborg. Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við Háskólann í Reykjavík flytur erindið: Jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar í ljósi kennilegra strauma á sviði jafnréttislöggjafar.
Allir velkomnir!
Kennilegur grunnur bannsins við mismunun á sviði alþjóðlegrar og evrópskrar mannréttindaverndar hefur þróast frá því að vera byggður á formlegri nálgun í átt að efnislegri og fjölþættri nálgun. Í erindinu verður gefið yfirlit yfir þessa þróun. Þá verður vikið sérstaklega að jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og fjallað um það hvort straumar og stefnur endurspeglist nægilega vel í íslenskri löggjöf.

Dr. Oddný Mjöll Arnardóttir er prófessor í lögum við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hún lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Edinborg 2002. Hún fékk lögmannsréttindi árið 1995 og stundaði áður lögmennsku. Hún var forseti Félags kvenna í lögmennsku 2005-2006 og sat í Vísindasiðanefnd 2003-2006. Oddný er stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofu Íslands. Meðal þess sem komið hefur út eftir hana er: Equality and Non-Discrimination under the European Convention on Human Rights (Martinus Nijhoff, 2003); The UN Convention on the Rights of Persons with Disabiltities – European and Scandinavian Perspectives (Ed., vith Gerard Quinn, Martinus Nijhoff, 2009) og fjöldi ritrýndra bókakafla og greina um mannréttindi, stjórnskipunarrétt og um löggjöf gegn mismunun.