Jafnréttistorg Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 27. febrúar verður fyrsta Jafnréttistorg vetrarins. Þar mun Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur flytja erindi sitt Tíminn læknar ekki öll sár og er það byggt á mastersrannsókn hennar um kynferðislega misnotkun og önnur sálræn áföll í æsku og áhrif þeirra á heilsufar og líðan kvenna.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna heilsufar og líðan kvenna sem hafa orðið fyrir sálrænum áföllum í æsku, eins og kynferðislegri misnotkun og öðru ofbeldi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að sálræn áföll í æsku, eins og kynferðisleg misnotkun og ofbeldi, hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Allar konurnar þróuðu með sér einkenni áfallaröskunar, lifa við mikla vanlíðan í dag, eru oft fullar vonleysis og finnst þær vera að gefast upp á lífinu.

Sigrún Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Ísafirði, er með lögreglumannspróf frá Lögregluskóla Ríkisins 1993, hjúkrunarfræðipróf frá Háskólanum á Akureyri 2001 og mastersgráðu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri 2007. Hún starfar nú sem hjúkrunarforstjóri á Hornbrekku á Ólafsfirði.

Jafnréttistorgið hefst kl. 12:00 og er í stofu L 201 - Sólborg, Háskólinn á Akureyri.

Fyrirlesturinn er öllum opinn.