Jafnréttisvika í MK

Menntaskólinn í Kópavogi hefur verið með jafnréttisviku dagana 12-15 mars og er aðaldagur jafnréttisvikunnar í dag. Boðið er upp á skemmtidagskrá með kynjaívafi, en á meðal skemmtiatriða er kynjagrín Steins Ármanns og innlegg frá meðlimum Botnleðju. Auk þess munu nemendur kynna verkefni tengd jafnrétti.


Frá mánudegi til miðvikudags var hefðbundið kennslufyrirkomulag stokkað upp og boðið upp á kvikmyndasýningar, fyrirlestra og spjall um hinar ýmsu hliðar jafnréttismála. Fimmtudagurinn 15. mars er aðaldagur vikunnar og þá verður boðið upp á léttan hádegisverð og skemmtidagskrá.

Dagskráin í dag stendur frá kl. 11-13:30. Hún hefst með kynjagríni, þar sem Steinn Ármann fjallar á gamansaman hátt um samskipti kynjanna. Í hádeginu eru léttar veitingar í boði skólans, en kl. 12:05 fjalla Halli og Heiðar úr Botnleðju um reynslu sína af hefðbundnu kvennastarfi og flytja tónlist í bland. Nemendur skólans munu einnig kynna verkefni tengd jafnréttismálum.

Með jafnréttisvikunni vilja Menntaskólinn í Kópavogi og jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar vekja athygli á mikilvægi jafnréttis og aukinnar umræðu um jafnréttismál á meðal ungs fólks.