Kallað eftir skýrari löggjöf á Norðurlöndunum og rannsóknum á áhrifum netníðs á lýðræði

Norræna ráðherranefndin fól NIKK, Norrænu upplýsingamiðstöðinni um kynjajafnrétti, að greina gildandi löggjöf um hótanir og hatursorðræðu á netinu. Í skýrslu sem kynnt var á ráðstefnu um málefnið sem haldin var í Stafangri í Noregi þann 21. júní sl. kemur fram að áhrifin af netníð birtast á margvíslegan hátt um leið og viðbrögð löggjafa landanna einkennast enn af óvissu. 

Í skýrslunni segir að netníð beinist jafnt að opinberum persónum sem og almennum borgurum og rannsóknir sýni að fólk sem tekur þátt í opinberri umræðu í tengslum við störf sín, s.s. fjölmiðlafólk, stjórnmálafólk, rithöfundar og listafólk, sé sérstaklega berskjaldað. Þá eru konur líklegri en karlar til að glíma við ýmis neikvæð áhrif netníðs, s.s. ótta eða skert öryggi.
Þegar karlar verða fyrir netníði er yfirleitt um að ræða niðrandi ummæli um færni þeirra í starfi eða hótanir um ofbeldi. Þegar konur verða fyrir árásum einkennast ummælin oftar af kynjafordómum og kynferðislegum hótunum, þar sem ummæli beinast að persónunni sjálfri frekar en störfum hennar.
Karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem skrifa hatursfull ummæli eða verða uppvísir af netníð. Skýrsluhöfundur bendir þó á að varast beri að fella hóp gerenda í ákveðinn flokk, þar sem þeir eru ýmist vel menntaðir eða lítið menntaðir, tengdir öfgahópum eða félagslega einangraðir.
Höfundur skýrslunnar, Moa Bladini lektor í refsirétti við Gautaborgarháskóla, leggur mikla áherslu á að kanna frekar tengsl milli netníðs og þátttöku í opinberri umræðu. Ljóst er af gögnum að þolendur netníðs eru sérstaklega fólk sem lætur sig réttindabaráttu ýmissa hópa varða og því verði viðbrögð löggjafa Norðurlandanna að leitast við að tryggja fólki næga réttarvernd.