Karlar einungis 22% nema við Háskólann á Akureyri

Í vikunni fékk Jafnréttisstofa heimsókn frá nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Þau voru að vinna frétt um jafnrétti í skólanum og á Jafnréttisstofu fengu þau kynningu á markmiðum jafnréttislaga og verkefnum stofunnar. Í framhaldinu leituðu þau upplýsinga um hlutfall karla og kvenna í deildum skólans og ræddu stöðu jafnréttismála við Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Í fréttinni sem birtist á fréttavef fjölmiðlafræðinema kemur fram að hlutfall karla og kvenna er mjög ójafnt við skólann. Árið 2013 voru karlar einungis 22% nemenda eða 343 þeirra 1568 sem sækja nám. Þá kemur fram í fréttinni að vegna skorts á fjármagni hafi áætlanir um að fjölga körlum ekki gengið eftir og ekki væru sérstök áform um að vinna að jafnari hlut kynjanna við skólann.