Karlar og jafnréttismál

Miðvikudaginn 19. september mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu flytja erindi á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri sem fjallar um tengsl karla við jafnréttismál. Í erindinu mun Tryggvi gera grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram, bæði á Íslandi og á Norðurlöndunum, til þess að auka hlut karla í umræðu um jafnréttismál. Þá mun Tryggvi kynna stefnu stjórnvalda á sviðinu og þá vinnu sem nú á sér stað, m.a. á vegum starfshóps velferðarráðherra. Torgið hefst kl. 12.00 og er í stofu M102.Janfnréttismál og jöfn staða kvenna og karla snerta flest svið samfélagsins. Þátttaka karla í umræðu um jafnréttismál er mikilvæg til að ná markmiðum um jafna möguleika einstaklinga á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Hvort sem umræðuefnið er fæðingarorlof, launamismunun, kynbundið ofbeldi eða klámvæðing, þá bera karlar ríka ábyrgð á þátttöku í umræðu um nauðsynlegar úrlausnir.
 
Tryggvi Hallgrímsson er félagsfræðingur og hefur MA gráðu í skipulagsheildum og stjórnun frá Háskólanum  í Tromsö í Noregi. Hann hefur starfað sem kennari við Háskólann á Akureyri og sem sérfræðingur á Jafnréttisstofu frá árinu 2008.