Karlar til ábyrgðar á norðurlandi

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011-2014 er kveðið á um að meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar, sem hefur staðið körlum á höfuðborgarsvæðinu til boða samfellt frá árinu 2006, verði nú einnig á boðstólum víðar um land. Akureyri og nágrenni verða fyrst til að njóta aukinnar þjónustu við karla sem vilja losna úr vítahring ofbeldisbeitingar og mun Kristján Már Magnússon sálfræðingur hafa umsjón með meðferðarúrræðinu þar.

Verkefnið Karlar til ábyrgðar er sérhæft meðferðartilboð fyrir karla sem beita maka sinn ofbeldi.  Reynslan af slíku meðferðarúrræði er góð bæði hérlendis sem erlendis.  Sálfræðingarnir Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson hafa byggt meðferðarúrræðið upp og notið til þess fyrirmynda og handleiðslu frá Alternativ til vold í Noregi.   Þeir annast meðferðarstarfið en markmið þess er að veita körlum sem beita heimilisofbeldi aðstoð og ráðgjöf sem byggist á einstaklingsviðtölum og getur staðið frá tveimur mánuðum til sex ára.

Frá því að verkefnið var endurvakið árið 2006 hafa 140 einstaklingar komið í eitt viðtal eða fleiri á höfuðborgarsvæðinu og fullt hefur verið í hópmeðferð sem í boði er fyrir þessa einstaklinga.  Sálfræðingar verkefnisins hafa komið á samstarfi við Rauða krossinn sem býður upp á meðferð fyrir börn sem búa við heimilisofbeldi.

Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar var kynnt á opnum fundi á Hótel Kea þann 7. desember sl. Fundarboð fór til þeirra aðila á norðurlandi sem koma að ofbeldi á heimilum og eru líklegir til að benda körlum sem beita maka sína ofbeldi á slíka leið til úrbóta.  Einnig voru haldnir fundir með starfsfólki félagsþjónustunnar og sjúkrahússins á Akureyri.