Karlar til ábyrgðar - ráðstefna

Í tilefni Árs jafnra tækifæramun Jafnréttisstofa standa að ráðstefnunni Karlar til ábyrgðar. Ráðstefnan verður haldin fimmtudaginn 30. ágúst í Kornhlöðunni í Reykjavík frá klukkan 9 til 16 og verður dagskráin tvískipt.
Fyrir hádegi verður lokuð námsstefna þar sem Marius Råkil, norskur sálfræðingur og forsvarsmaður verkefnisins Vestfjord /Alternative to Violence, verður með erindi þar sem hann mun á ítarlegan máta kynna verkefni og reynsluna af því. Á þennan fund verða boðaðir fulltrúar frá ýmsum stofnunum, félögum og ráðuneytum.

Eftir hádegi verður svo opinn fundur þar sem Marius verður einnig með erindi ásamt íslenskum sérfræðingum. Þar á meðal verða Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson sálfræðingar verkefnisins Karlar til ábyrgðar. Markmiðið með þessari ráðstefnu er að vekja fólk til umhugsunar um ábyrgð karla á ofbeldi gegn konum.

Karlar til ábyrgðar er verkefni sem hófst árið 1998 og var komið aftur af stað í fyrra eftir fimm ára hlé. Um er að ræða eina sérhæfða meðferðaúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi.