Karlar tregari til svara...

"Svör bárust síður frá körlum en konum" sögðu þær Eva Björk Jónudóttir jafnréttisfulltrúi Seyðisfjarðarkaupsstaðar og Sigurveig Gísladóttir fulltrúi velferðarnefndar, nefndarinnar sem fer með jafnréttismál sveitarfélagsins.

Þetta kom fram á fundi sem Jafnréttisstofa átti með þeim Evu Björk og Sigurveigu á ferð sinni um Austurland í byrjun október. Á fundinum kynntu Eva og Sigurveig m.a. könnun sem lögð hafði verið fyrir starfsfólk Seyðisfjarðarkaupstaðar. Í könnuninni voru jafnréttismál, launamál, einelti og kynferðisleg áreitni skoðuð. Spurningalistar voru sendir til fimmtíu og sjö starfsmanna. Svarhlutfallið var 68,5% sem verður að teljast nokkuð gott, Ekki síst í ljósi þess að þetta var í fyrsta skipti sem könnun af þessu tagi er lögð fyrir hjá sveitarfélaginu. Það kom nokkuð á óvart hversu mikill munur var á svarhlutfalli kynjanna en karlar voru mun tregari til svara en konur.

Spurningalistinn var unninn í samvinnu við Jafnréttisstofu en könnunin sjálf og úrvinnslan var alfarið í höndum jafnréttisfulltrúa og fræðslunefndar, sem fór með jafnréttismálin á síðasta kjörtímabili. Könnunin sýnir mikinn metnað af hálfu nefndarinnar og jafnréttisfulltrúa og er hvatning fyrir önnur sveitarfélögum til góðra verka í jafnréttismálum.

Á mynd, frá vinstri: Bergljót Þrastardóttir Jafnréttisstofu, Eva Björk Jónudóttir jafnréttisfulltrúi og Sigurveig Gísladóttir fulltrúi velferðarnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar.