Konur gára vatnið - fjarnámskeið heppnuðust vel

Konur hafa að jafnaði lægri laun en karlar og leið þeirra upp metorðastigann á vinnumarkaði er oft erfiðari en karla. Auk þess geta aðrir þættir, svo sem það að hafa verið utan vinnumarkaðar um tíma, að búa við fötlun eða búa í dreifðari byggðum, haft neikvæð áhrif á möguleika kvenna á vinnumarkaði. Konur gára vatnið verkefnið (Women Making Waves) hefur það að markmiði að draga úr þessum mun og styrkja konur sem búa við tvíþætta mismunun á vinnumarkaði. Verkefnið, sem hlaut 236.000€ styrk úr styrktarsjóði Erasmus+ 2019-2022, er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Byggðastofnunar auk þriggja aðila frá Bretlandi, Grikklandi og Spáni.

Einn megin verkþátturinn í verkefninu Konur gára vatnið er undirbúningur, hönnun og framkvæmd námskeiða fyrir konur sem búa við tvíþætta mismunun. Jafnréttisstofa og Byggðastofnun hafa nú nýlega lokið við prufukeyrslur á fyrri hluta námskeiðanna með þátttöku 9 kvenna sem allar búa við tvíþætta mismunun á vinnumarkaði. Námskeiðin, sem upphaflega voru ætluð sem staðnámskeið, fóru fram í gegnum fjarfundarbúnað og heppnuðust mjög vel og hafa þegar fengið góða endurgjöf frá þátttakendum.

Næstu skref verða að taka tillit til endurgjafar frá þátttakendum og leiðbeinendum og uppfæra námskeiðin í samræmi við það. Að verkefninu loknu munu námskeiðin vera gerð aðgengileg þeim sem áhuga hafa á að nýta þau til að efla skjólstæðinga sína eða starfsfólk.