,,Konur sem ganga menntaveginn virða ekki karla”

Á Jafnréttistorgi miðvikudaginn 20. apríl kl. 12.00-12.50 flytur Dr. Marta Einarsdóttir sérfræðingur við RHA erindi sem nefnist ,,Konur sem ganga menntaveginn virða ekki karla”: Menntun og atvinnuþátttaka kvenna í Mósambík sem ógnun við kynjahlutverk. 

Erindið er byggt á etnógrafískri doktorsrannsókn Dr. Mörtu Einarsdóttur, sem bjó í litlu þorpi í Mósambík, hjá einstæðri móður og fjölskyldu hennar og skoðaði þær hindranir sem sumar giftar konur urðu fyrir þegar þær hófu nám á ný á fullorðinsaldri. Fjallað er um hvernig sumir karlar túlka aukna menntun og atvinnuþátttöku kvenna sem ógnun við karlmennskuímyndina og kynhlutverk sitt sem ,,fyrirvinna” og ,,húsbóndi.” Þessi andstaða birtist á mismunandi hátt, frá úrtölum upp í andlegt og líkamlegt ofbeldi. 
Jafnréttistorgið er í samstarfi Jafnréttisstofu og Félagsvísindatorg HA. 

Marta er með doktorspróf í menntavísindum og MA í þróunarfræðum, með áherslu á kynjafræði, frá East Anglia háskóla í Bretlandi. Marta starfar sem sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA). Þar hefur hún m.a. stundað rannsóknir á samhæfingu fjölskyldulífs og atvinnu. 

Jafnréttistorgið (Félagsvísindatorgið) verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.