Konur um heim allan: Samstaða og samvinna

UNIFEM efnir til opins fundar laugardaginn 8. mars kl. 12:00-13:30 í stofu 105 Háskólatorgi Háskóla Íslands. Utanríkisráðherra Líberíu, Olubanke King Akerele, verður heiðursgestur á fundinum sem Háskóli Íslands býður til í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Auk King Akerele munu Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Joanne Sandler, starfandi aðalframkvæmdastjóri UNIFEM í New York og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafa framsögu.  Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK við HÍ og Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki og formaður undirbúningsnefndar um stofnun alþjóðlegs jafnréttisskóla, stjórna umræðum.

Olubanke King Akerele hefur gegnt stöðu utanríkisráðherra Líberíu frá því í október 2007 en hún var áður viðskipta- og iðnaðarráðherra. Líkt og forseti landsins, Ellen Johnson-Sirleaf, á King Akerele að baki langan og farsælan feril hjá alþjóðastofnunum, en King Akerele starfaði í tuttugu ár að þróunarmálum hjá SÞ, einkum að málefnum kvenna.