Krefjast þess að Fjármálaeftirlitið fari að jafnréttislögum

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem félagið krefst þess að Fjármálaeftirlitið fari að jafnréttislögum, en aðeins tvær konur eru á meðal þeirra sem skipaðir hafa verið í skilanefndir vegna yfirtöku ríkisins á fjármálastofnunum. Jafnframt fagnar félagið ráðningu á konu í starf bankastjóra Landsbankans. 

Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að Kvenréttindafélag Íslands harmi það ástand sem upp er komið á fjármálamörkuðum og hjá fjármálastofnunum landsins. Félagið vekur athygli á því að við yfirtöku ríkisins á fjármálastofnunum hafi Fjármálaeftirlitið skipað þrjár skilanefndir. Einungis tvær konur séu meðal þeirra fimmtán sem skipaðir hafa verið í nefndirnar.

Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að Fjármálaeftirlitið fari að íslenskum lögum eins aðrar stofnanir og gæti að hlutfalli kynjanna þegar skipað er í nefndir. Kvenréttindafélag Íslands bendir á að markmið jafnréttislaganna sé m.a. það að “gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins” og að “vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu”.

Þá minnir félagið á að fyrr á þessu ári gáfu hundrað konur, sem allar hafa mikla reynslu í atvinnulífinu, kost á sér til setu í stjórnum og nefndum. Jafnframt fagnar Kvenréttindafélag Íslands ráðningu Elínar Sigfúsdóttur sem bankastjóra Nýs Landsbanka og óskar henni velfarnaðar í starfi.

Ályktun stjórnar KRFÍ má lesa í heild sinni hér.