Kvennafrídagurinn 24. október 2016

Í tilefni Kvennafrídagsins mánudaginn 24. október boða Jafnréttisstofa og Akureyrarbær til opins hádegisfundar á Hótel KEA. Á fundinum verður fjallað um launajafnrétti kynjanna en rannsóknir sýna að enn hallar á konur í launa- og kjaramálum.

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti lét vinna launakönnun sem tók til vinnumarkaðarins í heild. Í könnuninni sem tekur til áranna 2008 til 2013 kemur fram að kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild; 7,8% á almennum vinnumarkaði og 7,0% á opinberum vinnumarkaði.

Í nýlegri launakönnun VR er kynbundinn launamunur 10% sem jafngildir því að konur í VR séu „launalausar“ í 36 daga á ári. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hafa konur að meðaltali 70,3% af heildarlaunum karla.

Dagskrá fundarins:

  • 11.45: Húsið opnað.
  • 12.00: Fundarstjóri setur fundinn. Katrín Björg Ríkarðsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra.
  • 12.05: "Til færri fiska metnar." Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.
  • 12.15: "Starfsmatskerfi til að meta ólík störf til sömu launa." Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags.
  • 12.30: "Völd, virðing og launaseðillinn." Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands.
  • 12.45: Umræður.
  • 13.15: Fundi slitið.