Kvenréttindadagurinn 19. júní haldinn hátíðlegur víða um land

Í Ráðhúsi Reykjavíkur komu saman hátt í 200 konur til að fagna kvenréttindadeginum en þar fór m.a. fram kynning á Skottunum sem eru regnhlífasamtök kvenna sem halda utan um kvennafrídaginn 24. - 25. október. Vigdís Finnbogadóttir verndari dagsins hélt erindi. Í ár ætla konur í Reykjavík að beina sjónum sérstaklega að kynferðislegu ofbeldi og halda alþjóðlega ráðstefnu sunnudaginn 24. október undir yfirskriftinni: Konur gegn kynbundnu ofbeldi/Women Strike Back 2010.
Konur munu leggja niður störf að loknum sanngjörnum vinnudegi mánudaginn 25. október kl. 14.25 þegar þær hafa unnið 65.65% af vinnudeginum. Í Reykjavík verður stór útifundur á Arnarhóli þar sem ræðumenn munu vekja athygli á kynbundnu ofbeldi.
Á Akureyri verður gengið saman frá styttunni af Þórunni Hyrnu í menningarhúsið Hof þar sem fundur verður haldinn í tilefni dagsins .

Vinningstillögur í hönnunarsamkeppni Skottanna og Hönnunarmiðstöðvarinnar voru kynntar í Ráðhúsinu en merkið á að selja til styrktar kynbundnu ofbeldi og mansali og á að höfða bæði til karla og kvenna.
Alls bárust 24 tillögur af barmmerki í hönnunarsamkeppnina.



Sigurvegarar hönnunarsamkeppninar eru Hrafnhildur A. Jónsdóttir og Tinna Brá Baldvinsdóttir frá Akureyri.
Þær tóku fram að innblásturinn væri sóttur í þrívíddargleraugu. Aðeins með þrívíddargleraugum er hægt að sjá raunveruleikann óbrenglaðan. Nælan á því að minna fólk á að horfast í augu við raunveruleikann og sjá hlutina í réttu samhengi. Lituðu glerin, blá og rauð, minna okkur á að mansal og kynbundið ofbeldi er sameiginlegt vandamál kynjanna.
Einnig var veitt viðurkenning fyrir fallegt merki en hana hlutu Anna Valgerður Jónsdóttir og Helga Ósk Einarsdóttir en þær sendu inn skott af fyrirmynd skotthúfu.


    
Sýnishorn af verlaunatilllögu



Stjórn Skottanna ásamt Vigdísi Finnbogadóttur

Konur víðs vegar að úr heiminum hafa boðað komu sína til Íslands dagana 24-25 október.

Í tilefni kvenréttindadagsins var haldið í þriðju kvennasögugönguna um innbæinn á Akureyri en bryddað upp á nýjungum að þessu sinni þar sem gestum göngunnar var boðið að líta inn í elsta sjúkrahúsið í bænum, Gudmanns Minde og var Lystigarðurinn endastöð göngunnar þar sem 100 ár eru liðin frá stofnun Lystigarðsfélagsins sem lagði grunn að gerð þessa fallega garðs. Gangan var vel sótt að þessu sinni en um 50 göngugestir tóku þátt í henni.

Í Dölum var haldið í helgigöngu í minningu Auðar djúpúðgu þar sem hún nam land fyrir rúmum 1100 árum. Auður djúpúðga Ketilsdóttir var eina konan í hópi landnámsfólks sem fór fyrir eigin leiðangri til Íslands og ein fárra þeirra sem Landnámabók segir að hafi verið kristinnar trúar.

 
Gengið upp Spítalaveginn á Akureyri                                              Hlín Bolladóttir, bæjarfulltrúi flytur erindi í Minjasafnsgarðinum á Akureyri