Kynbundið launamisrétti rakið til kynbundins vinnumarkaðar

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti hefur kynnt niðurstöður rannsóknarverkefna hópsins. Annars vegar er um að ræða fyrstu rannsókn, sem gerð hefur verið hér á landi á kynbundnum launamun, sem tekur til vinnumarkaðarins í heild og hins vegar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.Ofangreind launarannsókn byggir á miklum gagnagrunni um laun og margvíslega þætti um stöðu launamanna og tekur til áranna 2008 til 2013. Með tölfræðilegum aðferðum er metið hvaða áhrif einstaka þættir, s.s. kyn, menntun, aldur, starfsaldur og atvinnu- og starfsgrein, hafa á laun. Þegar horft var til alls gagnatímabilsins kom í ljós að þannig metinn kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild; meiri á almennum vinnumarkaði (7,8%) en á opinberum vinnumarkaði (7,0%).

Í rannsóknarskýrslunni:Staða kvenna og karla á vinnumarkaði kemur fram að staða kynjanna á vinnumarkaði er þrátt fyrir ákveðnar framfarir ójöfn. Konur er líklegri til að vinna hlutastörf og hverfa frekar en karlar af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum.  Einnig kemur fram að vinnuveitendur eru tregari til að fjárfesta í starfsþróun kvenna og í ljós kemur að körlum eru oftar boðin hærri laun. Konur eru líklegri til að taka fyrsta launatilboði á meðan karlar gera frekar gagntilboð um hærri laun. Launamunur getur því myndast í ráðningarferlinu og haldist alla starfsævina. Tekjur kvenna endurspeglast í lægri lífeyrisgreiðslum sem að stórum hluta eru greiddar úr sameiginlegum sjóðum. 

Nánari upplýsingar um niðurstöður nýrrar rannsóknar um kynbundinn launamun og skýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði er að finna á vef Velferðarráðuneytisins