Kynjadagar í Listaháskóla Íslands

Kynjadagar Listaháskóla Íslands eru haldnir vikuna 6. október - 10. október. Dagskráin er helguð kynjunum og kynjaímyndum. Nemendur Listaháskólans og listamenn kynna verk tengd kynjafræðum og verða með innlegg. Kynjadagar LHÍ eru haldnir að frumkvæði jafnréttisnefndar skólans. Dagskráin hófst í hádeginu í dag í húsnæði Myndlistardeildar á Laugarnesvegi 91 en þar fluttu Rakel Mcmahon og Svala Ragnarsdóttir myndlistarkonur erindið “æææ… svona kvennalist”. Í fyrirlestrinum veltu þær m.a. fyrir sér hvort eitthvað sé til sem hægt sé að flokka sem kvennalist.

Á þriðjudag í hádeginu kl. 12.00 verða flutt tvö erindi í húsnæði Hönnunar-og arkitektúrdeildar í Skipholti 1. Eva María Árnadóttir fatahönnuður mun fjalla um hvort hægt sé að nýta kvenleikann til að ná jafnrétti og ber erindið heitið “Tískuþrælar og frjálsir menn”. Innlegg Örnu Sigrúnar Haraldsdóttur fatahönnuðar nefnist “Áhrif fatnaðar á jafnréttisbaráttu kynjanna”. Þar mun hún velta því fyrir sér hvaða áhrif útlit og klæðnaður hafa á samkeppnishæfni kvenna á atvinnumarkaðnum og valdabaráttu kynjanna.

Á föstudeginum kl. 12.00 verða tvær uppákomur í húsnæði tónlistar- og leiklistardeildar á Sölvhólsgötu 13. Karólína Eiríksdóttir tónskáld mun fjalla um kventónskáld á barokktímabilinu og síðan munu nemendur í Fræði og framkvæmd í leikistardeild flytja stutt verk „Skafur greflist” þar sem lögð er áhersla á að nýta ýmsa tækni svo sem ljós og hljóð í leikhúsum.

Dagskrá Kynjadaga Listaháskólans er öllum opin.