Líf án ofbeldis er allra réttur

Þriðjudaginn 25. nóvember stendur UNIFEM á Íslandi fyrir árlegum morgunverðarfundi sínum á Hótel Holti kl. 8:15 – 9:30. Heiðursgestur fundarins verður Gro Lindstad yfirmaður UNIFEM á sviði samstarfs við ríkisstjórnir og þjóðþing. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ávarpar einnig fundinn og nýútkomið tímarit UNIFEM verður kynnt. Gro Lindstad mun fjalla um verkefni UNIFEM víðsvegar um heim sem hafa það að markmiði að binda endi á ofbeldi gegn konum. Hún mun segja frá því hvaða aðferðum er beitt og hvernig hefur til tekist. Hún mun sérstaklega beina sjónum sínum að mikilvægi þess að karlar taki þátt í baráttunni og verkefnum sem unnin hafa verið á fyrrum átakasvæðum.
 
Emebet Merkuria vann sem grunnskólakennari í Eþíópíu en kom hingað til lands árið 2001 ásamt eiginmanni og dóttur til að öðlast betri framtíð fyrir fjölskylduna. Hún þekkir af eigin að raun að búa í samfélagi þar sem ofbeldi gegn konum er samþykkt sem hluti af samfélagsgerðinni. Hún mun segja frá reynslu sinni.

Gro Lindstad frá Noregi er sérfræðingur á sviði mannréttinda. Síðan í mars á þessu ári hefur hún verið yfirmaður UNIFEM á sviði samstarfs við ríkisstjórnir og þjóðþing víðsvegar um heim auk þess sem sinnir hún ráðgjöf til framkvæmdastjórnar UNIFEM um pólitísk málefni. Á árunum 1996-2008 vann hún sem ráðgjafi fyrir þingflokk Vinstri-grænna í Noregi , framan af á sviði jafnréttismála og síðar á sviði utanríkisstefnu og þróunarmála auk málefna flóttamanna, hælisleitenda og innflytjenda. Hún var yfirmaður norsku flóttamannastofnunarinnar í Króatíu og Bosníu- Hersegóvínu þar sem hún kom m.a. að gerð aðgerðaáætlunar um hvernig koma skuli í veg fyrir kynferðislegt og kynbundið ofbeldi í stríðsátökum.

Fundarstjóri verður Oddný Sturludóttir
Aðgangseyrir er kr. 2300.- en fyrir námsmenn kr. 1700.- Morgunverður er innifalinn.


Morgunverðarfundurinn markar upphafið að 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og er haldinn á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gegn konum. Á þriðja tug samtaka og stofnana standa sameiginlega að átakinu dagana 25. nóvember til 10. desember.