Ljósaganga í Reykjavík

Þann 25. nóvember næstkomandi mun UNIFEM á Íslandi í samvinnu við mannréttindasamtök og kvennahreyfinguna á Íslandi, standa fyrir Ljósagöngu í tilefni af alþjóðlegum degi gegn kynbundnu ofbeldi og 16 daga átaki gegn ofbeldi gegn konum sem hefst í kjölfarið. Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Tímasetningin var einnig valin til að leggja áherslu á mannréttindabrotin sem felast í slíku ofbeldi.

Yfirskrift 16 daga átaksins í ár er: Berjumst gegn ofbeldi gegn konum á átakasvæðum og hérlendis verður lögð áhersla á ábyrgð gerenda í ofbeldismálum.

Í ár verður farið í Ljósagöngu frá Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu klukkan 19.00, að Sólfarinu við Sæbraut. Bæði áður en gengið er af stað og eftir að á áfangastað er komið, munu konur af ýmsum þjóðernum lesa ljóð sem tengjast baráttumálum kvenna. Að því loknu verður friðarsúlan tendruð. 

Tilgangur Ljósagöngunnar er að vekja athygli á stöðu þeirra milljóna kvenna sem verða fyrir ofbeldi, bæði hér heima og erlendis. Markmiðið er einnig að minna á þá skömm og niðurlægingu sem slíku ofbeldi fylgir þegar ábyrgðin ætti að öllu leyti að hvíla á herðum gerandans.

Slökkt verður á friðarsúlunni þennan dag klukkan 19.45 til að vekja athygli á því myrkri og einangrun sem fórnarlömb kynbundins ofbeldis þurfa að búa við. Með því að tendra ljósið á ný fylgir sú von að hægt verði að vinna bug á ofbeldi gegn konum í heiminum og því kynjamisrétti sem því fylgir. Friður ríkir ekki fyrr en búið er að uppræta ofbeldi gegn konum, í öllum þeim myndum sem það birtist.

Kyndlar verða seldir á staðnum á 500 krónur