Ljósagangur og litadýrð í háskólum landsins til áminningar um jafnréttismál

Háskólar landsins standa saman að ljósagjörningi í hádeginu í dag, mánudaginn 5. október til að undirstrika mikilvægi mannréttinda og umræðu um jafnréttismál. Dagurinn markar jafnframt upphaf jafnréttisdaga og fræðsluviðburða um jafnréttismál sem fara fram í skólunum sjö. Þetta er í fyrsta sinn sem skólarnir vinna saman að gjörningi tengdum jafnréttismálum en viðburðurinn hefur einnig skírskotun í Alþjóðlegt ár ljóssins á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Útfærsla á ljósagjörningnum er í höndum hvers og eins skóla og munu sumir skólanna t.a.m. lýsa upp byggingar að utan en aðrir að innan. En hvað sem því liður verða þó litir regnbogans í aðalhlutverki á öllum stöðum til að undirstrika mikilvægi umræðu um og baráttu fyrir mannréttindum.

Í næstu og þarnæstu viku munu skólarnir jafnframt bjóða upp á ýmiss konar fræðslu um jafnréttismál, bæði í formi fyrirlestra og veggspjalda en einnig í formi tónleika og annars konar listviðburða. Markmiðið með þeim öllum er að vekja stúdenta og starfsmenn skólanna og ekki síður gesti skólanna til umhugsunar um jafnréttismál á afar breiðum grunni og eru viðburðir í mörgum skólanna haldnir undir merkjum sérstakra jafnréttisdaga. 
Nánari upplýsingar um jafnréttisdaga og viðburði tengda jafnréttismálum má finna á vefjum skólanna.

Háskólinn á Akureyri: http://www.unak.is/is/frettir/jafnrettisdagar-2015
Háskólinn á Bifröst: http://www.bifrost.is/
Háskólinn á Hólum: http://holar.is/
Háskóli Íslands og Listaháskóli Íslands: http://www.hi.is/adalvefur/dagskra_jafnrettisdaga_2015
Háskólinn í Reykjavík: http://www.ru.is/haskolinn/vidburdir/nr/32272
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri: lbhi.is