Ljósberi ársins - Gísli Hrafn Atlason

Síðastliðinn föstudag var afhent viðurkenningin Ljósberi ársins. Þetta árið féll hún í skaut Gísla Hrafns Atlasonar fyrir framlag hans til jafnréttisbaráttunnar.


Að starfshópnum um Ljósbera ársins standa Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Menningarmiðstöðin Gerðubergi, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, Félagsþjónustan, SAMFOK, Lögreglan í Reykjavík, Landlæknisembættið og Neyðarmóttakan. Reynsla, menntun, yfirsýn og margra áratuga starf að skóla-, félags- og forvarnarmálum sameinar hópinn. En það sem vegur þyngst er þó sú hugsjón að vilja bæta samfélagið með því að efla ábyrgð og heilbrigt gildismat uppalenda og fjölmiðla til barna og um leið að efla gagnrýna hugsun með börnum.

Val á Ljósbera ársins er ein leið til að hafa áhrif á umræðu í samfélaginu, undirstrika ábyrgð foreldra, skóla og uppalenda og um leið að virkja fjölmiðla til gagnrýnnar umræðu um viðbrögð gegn klámvæðingu, markaleysi og óheilbrigðum gildum. Með því að vekja athygli á framúrskarandi starfi eða viðbrögðum einstaklinga við krefjandi aðstæðum skapast umræða um þeirra störf og gildismat.

Í rökstuðningi hópsins fyrir valinu á Gísla Hrafni kemur meðal annars fram: ?Að mati samstarfshópsins hefur Gísli Hrafn sýnt frumkvæði, djörfung og baráttuanda í umræðum og verið í forsvari í því að virkja karlmenn til ábyrgðar gegn kynbundnu ofbeldi í samfélaginu. Hann hefur tekið virkan þátt í jafnréttismálum og vakið athygli á hlutverkaskiptingu kynjanna, samþættingu daglegs lífs og atvinnuþátttöku foreldra og hvaða áhrif það hefur á fjölskyldulíf. Þannig hefur hann verið sú sterka rödd úr röðum karla sem hvetur til heilbrigðra samskipta milli kynja, foreldra og barna. Gísli Hrafn hefur hvatt til breytinga á lögum í samræmi við þekkingu hans á afleiðingum ofbeldisbrota. Hann hefur náð að samþætta alþjóðlega og íslenska umræðu og rannsóknir og byggt þannig sannfærandi brýr með rökstuðningi sínum til almennings."

Gísli Hrafn hefur starfað á vegum Jafnréttisstofu síðustu ár og óskar samstarfsfólk hans honum til hamingju.