Lokaráðstefna Jafnréttiskennitölunnar 19. september

Lokaráðstefna verkefnisins um jafnréttiskennitöluna verður haldin þann 19. september næstkomandi. Yfirskrift ráðstefnunar er nýting mannauðs í stjórnun og æðstu stjórnunarstöðum fyrirtækja og er hún haldin í Salnum í Kópavogi þann 19. september næstkomandi. Aðalfyrirlesari verður Eleanor Tabi Haller-Jorden framkvæmdastjóri Catalyst í Evrópu, leiðandi fyrirtækis á sviði jafnréttis og viðskipta. Ráðstefnan er liður í afmælisdagskrá Háskólans á Bifröst á 90. ára afmælisári hans.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, mun ávarpa ráðstefnugesti, en fyrirlesarar eru eftirfarandi:

  • Eleanor Tabi Haller-Jorden, framkvæmdastjóri Catalyst í Evrópu
  • Marit Hoel, framkvæmdastjóri Centre for Corporate Diversity í Noregi og Nordic 500 könnunarinnar
  • Elín Blöndal, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst
  • Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins
  • Margrét Sæmundsdóttir, hagfræðingur viðskiptaráðuneytisins
  • Illugi Gunnarsson, alþingismaður

Þá munu stjórnendur úr atvinnulífinu taka þátt í umræðum.

Ágúst Einarsson, rektor við Háskólann á Bifröst, setur ráðstefnuna og Bryndís Hlöðversdóttir, deildarforseti lagadeildar, verður fundarstjóri.

Nánari dagskrá verður kynnt þegar nær dregur.

Með ráðstefnunni lýkur verkefninu um Jafnréttiskennitöluna, sem unnið hefur verið af Rannsóknasetri í vinnurétti og jafnréttismálum við Háskólann á Bifröst. Samstarfsaðilar þess eru viðskiptaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Jafnréttisstofa og jafnréttisráð. Sérstakir styrktaraðilar verkefnisins árið 2008 eru Inn-fjárfesting og Baugur Group.

Ráðstefnan í Salnum er öllum opin en ráðstefnugjald er 4500 krónur og er morgunverður innifalinn. Húsið verður opnað kl. 8:00 en dagskráin stendur frá 8.30-12.30.

Skráning er hafin.

Hún fer fram í síma 433 3000 og á heimasíðu Háskólans á Bifröst.