Lýsir yfir áhyggjum af auknum launamun kynjanna

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga fór fram dagana 18.-19. september í Mosfellsbæ. Fundurinn tókst mjög vel og voru fundargestir á fimmta tug frá öllu landinu. Á fundinum var Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum kynntur, auk þess sem ályktanir um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum og stjórnun fyrirtækja, jafnrétti í skólum og kynbundinn launamun voru samþykktar.Landsfundurinn var sá 25. í röðinni, en fyrsti landsfundur jafnréttisnefnda var haldinn á Akureyri 1983. Dagskrá fundarins hófst með kynningu Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, á nýjum jafnréttislögum og í kjölfar umræðna um þau hélt Arnfríður Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Jafnréttisstofu, erindi um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum. Arnfríður er umsjónarmaður þróunarverkefnisins Jafnrétti í skólum sem fimm sveitarfélög taka nú þátt í, en verkefnið miðar m.a. að því að koma upp verkefnabanka varðandi jafnréttisfræðslu.
 
Fulltrúar jafnréttisnefnda sveitarfélaga kynntu stöðu og verkefni jafnréttismála í sínum sveitarfélögum og Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, kynnti Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar undirritaði sáttmálann og Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði fundargesti.
 
Í lok fundarins voru samþykktar ályktanir, þar sem fundargestir lýstu m.a. áhyggjum sínum af auknum launamun kynjanna og hvöttu sveitarstjórnir til að stuðla að auknum hlut kvenna í stjórnmálum. Ályktanir fundarins má lesa í heild sinni hér.