Málþing um heimilisofbeldi á Amtsbókasafninu

Samstarfshópur um 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi stóð fyrir málþingi á Amtsbókasafninu á Akureyri í síðustu viku þar sem augum var sérstaklega beint að heimilisofbeldi og réttarstöðu kvenna af erlendum uppruna sem verða fyrir slíku ofbeldi hérlendis.Á málþinginu fjallaði Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins um starfsemi athvarfsins sem hefur nú sprengt utan af sér húsnæðið. Árið 2011 voru skráðar 107 komur í dvöl í Kvennaathvarfinu og 564 í viðtöl, alls 671 koma en þær hafa aðeins tvisvar sinnum í sögu athvarfsins verið fleiri á einu ári. Margar konur koma oftar en einu sinni, einkum þær sem koma í viðtöl eða taka þátt í sjálfshjálparhópum. Árið 2011 var 31% kvenna sem komu í Kvennaathvarfið af erlendum uppruna; 52% dvalarkvenna og 20% þeirra sem komu í viðtöl. Samkvæmt rannsókn Hildar Guðmundsdóttur starfskonu Kvennaathvarfsins á aðstæðum kvenna af erlendum uppruna sem leita í Kvennaathvarfið er mikill munur á upplifun og aðstæðum kvenna eftir landfræðilegum uppruna vegna reglugerðar um frjálst flæði vinnuafls innan EES. Staða þeirra sem koma frá löndum innan EES er jafnan auðveldari en hinna sem oft eru háðar maka varðandi íslenskt atvinnuleyfi. Mikilvægt er að rannsaka betur stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, kynna þeim réttindi sín og gera þeim kleift að sækja sinn rétt þegar kemur að heimilisofbeldismálum.

Rachael Lorna Johnstone, dósent við lagadeild HA fjallaði um álit nefndar Sameinuðu þjóðanna á heimilisofbeldismálum þar sem brotaþolar voru konur af erlendum uppruna búsettar í Austurríki, Ungverjalandi og Búlgaríu. Álit nefndarinnar hafa sýnt fram á þá mismunun sem konur af erlendum uppruna verða fyrir og hvernig litið hefur verið framhjá þjóðerni þeirra og stöðu þegar unnið er með þeirra mál hjá félagsþjónustu, lögregluembættum og í réttarkerfinu í viðkomandi löndum.

Eyþór Þorbergsson, fulltrúi Sýslumannsembættisins á Akureyri fjallaði um fjölda og afdrif heimilisofbeldis- og nauðgunarmála sem komu til rannsóknar hjá lögreglunni á Akureyri frá árinu 2009 og fram í nóvember á þessu ári. Fjöldi mála er svipaður frá ári til árs en hlutfall niðurfellinga eru einnig svipað eða um 60%. Þau mál sem falla undir málaflokkinn heimilisofbeldi eru ekki einungis mál sem varða ofbeldi gegn maka, en heimilisofbeldismálum hefur fjölgað á Akureyri undanfarið ár eins og Guðrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar staðfesti einnig í umfjöllun sinni um tilkynningar til barnaverndar vegna ofbeldis. Tilkynningum til barnaverndar Eyjafjarðar hefur fjölgað um 63% á milli áranna 2011 og 2012. Mun oftar er tilkynnt um heimilisofbeldi en áður, þ.e. ofbeldi eða átök milli maka þar sem börn eru á heimilinu. Tilkynningum um áfengisvanda foreldra eða vímuefnavanda þeirra hefur fjölgað mest. Um er að ræða 44 tilvik fyrstu 10 mánuði 2012 en þau voru 26 allt árið í fyrra. Stefnir því í tvöföldun á fjölda slíkra mála. Tilkynningum vegna vanrækslu hefur einnig fjölgað verulega síðastliðið ár ef litið er til fyrri ára.
 
Myndir frá málþinginu