Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar verður að mannréttindaráði

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í síðasta mánuði að breyta mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar í mannréttindaráð. Tilgangur breytingarinnar er að gefa mannréttindamálum aukið vægi innan stjórnsýslu borgarinnar. Að sögn Sóleyjar Tómasardóttur, formanns mannréttindaráðs, eru mannréttindamál staðsett ofar í skipuriti Reykjavíkurborgar eftir breytinguna. Jafnframt voru fjárframlög til málaflokksins hækkuð. Er ætlunin að  bæta við stöðugildum og ráða sérfræðinga í þeim málaflokkum sem heyra undir mannréttindaráð.

Mannréttindaráð fer með verkefni jafnréttisnefndar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla,  ásamt öðrum verkefnum á sviði mannréttindamála sem tilgreind eru í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Auk jafnréttis kynjanna tekur mannréttindastefnan til mismununar vegna aldurs, fötlunar, heilsufars, kynhneigðar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, uppruna og þjóðernis.

Á fyrsta fundi sínum þann 10. janúar sl. samþykkti mannréttindaráð að 16. maí yrði framvegis mannréttindadagur Reykjavíkurborgar, en á þeim degi árið 2006 var mannréttindastefna borgarinnar samþykkt samhljóða í borgarstjórn. Á árlegum mannréttindadegi verður mannréttindaverðlaunum Reykjavíkurborgar úthlutað.

Nánar um mannréttindaráð og mannréttindastefnuna á heimasíðu Reykjavíkurborgar.