Mannréttindavika Menntaskólans í Kópavogi

Menntaskólinn í Kópavogi í samstarfi við jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar heldur mannréttindaviku þessa daganna. Í fyrra var haldin jafnréttisvika og nú er um að ræða mannréttindaviku. MK hefur unnið markvíst að jafnréttismálum undanfarin ár og fékk meðal annars viðurkenningu Jafnréttisráðs árið 2007.

Dagskrá mannréttindavikunnar er mjög fjölbreytt og boðið er uppá fyrirlestra, kvikmyndasýningar og skemmtisýningar. Af kvikmyndum sem sýndar eru má nefna Engla Alheimsins, The Road to Guantanamo, Hotel Rwanda og Lystin að lifa (um átröskun). Einnig verða sýndar myndir þar sem aðstandendur munu sitja fyrir svörum, þar má nefna kvikmyndirnar Börn og Sófakynslóðin (aktívismi ungs fólks).

Síðan er aragrúi af fyrirlestrum þar sem meðal annars eftirfarandi málefni eru tekin fyrir: mannréttindi og flóttamenn; líf í nýju landi; reynsla ungs fólks af erlendum uppruna af Íslandi og Íslendingum; mismunandi trúarbrögð og downs heilkenni.

Dagskráin hófst í gær og lýkur fimmtudaginn 6. mars.