Með viljann að vopni

Þann 4. september til 7. nóvember verður sýningin Með viljann að vopni - Endurlit 1970 - 1980 á Kjarvalsstöðum. Á sýningunni er megin áherslan lögð á áttunda áratug síðustu aldar, sem var fyrir margra hluta sakir viðburðaríkur á ýmsum sviðum íslensks samfélags, jafnt efnahagslega sem félags- og menningarlega. Oft er skírskotað til hans sem „kvennaáratugarins“ en nýja kvennahreyfingin, sem nefnd hefur verið önnur bylgja femínisma og laust niður sem eldingu austan hafs og vestan, barst einnig til Íslands og fór af stað á fullri ferð. Á sýningunni er litið aftur til áranna 1970-1980 en sýnendurnir tuttugu og sjö eiga það sameiginlegt að vera meðal þeirra fjölmörgu, íslensku kvenna sem þá störfuðu að myndlist. Margar þeirra komust til þroska í andrúmi þessa tíma, þótt aðrar hafi þá þegar verið mótaðar.Meðal viðburða sem mörkuðu kvennaáratuginn eru stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og skipun fyrsta kvenráðherrans, Auðar Auðuns, fyrir fjörutíu árum. Fyrsti kvennafrídagurinn var skipulagður fyrir 35 árum og Vigdís Finnbogadóttir var kjörin í embætti forseta fyrir þrjátíu árum. Auk þess er vert að minnast þess að á þessu ári er öld liðin frá því að íslenskar konur öðluðust kosningarétt í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum.

Sýningunni verður fylgt úr hlaði með ýmsu móti. Gefin verður út bók, prýdd fjölda mynda og efnt verður til fjölmargra viðburða sem tengjast kvennaáratugnum og unnir eru í samstarfi við Skotturnar, opinn samstarfsvettvang ætlaðan til virkni í þágu jafnsréttisbaráttu, með kvennafrídaginn sem útgangspunkt.

Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram en sýnendur eru: Anna Þóra Karlsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Ásgerður Búadóttir, Ásta Ólafsdóttir, Björg Þorsteinsdóttir, Borghildur Óskarsdóttir, Edda Jónsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Elísabet Haraldsdóttir, G.Erla (Guðrún Erla Geirsdóttir), Hildur Hákonardóttir, Jóhanna Bogadóttir, Margrét Jónsdóttir, Messíana Tómasdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, Róska (Ragnhildur Óskarsdóttir), Rúna (Guðrún Þorkelsdóttir), Rúna (Sigrún Guðjónsdóttir), Rúrí, Sigrún Eldjárn, Sigrún Sverrisdóttir, Steinunn Bergsteinsdóttir, Steinunn Marteinsdóttir, Svala Sigurleifsdóttir, Valgerður Bergsdóttir, Þorbjörg Höskuldsdóttir og Þorbjörg Þórðardóttir.

Opnunarræða Frú Vigdísar Finnbogadóttur


k(v)k-smiðja í tenslum við sýninguna Með viljann að vopni
Jafnrétti kynjanna, kvenleiki og karllæg viðhorf fá á sig áhugaverða mynd í norðursal Kjarvalsstaða í k(v)k-smiðju, sem verður opnuð í tengslum við sýninguna Með viljann að vopni. Þar býðst fjölskyldum og nemendum að glíma við spurningar og verkefni er varða jafnréttismál með það að markmiði að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar. k(v)k-smiðja er unnin í samstarfi við höfunda Kynungabókar sem gefin var út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í ágúst 2010, Ragneiði Bjarnarson, dansara og Skotturnar – opinn samstarfsvettvang ætlaðan til virkni í þágu jafnréttisbaráttu, með kvennafrídaginn sem útgangspunkt.


Safnaskottur - Dagskrárveisla. 9. - 25. október
Fyrir kvennafrídaginn þann 25. október verður dagskráveisla á Kjarvalsstöðum í tengslum við sýninguna Með Viljann að vopni.

Sunnudag 10. október kl. 15
Kjarvalsstaðir – Með viljann að vopni
Fyrirlestur. Þóra Þórisdóttir myndlistarkona talar um konur og myndlist.

Sunnudag 17. október kl. 15
Kjarvalsstaðir – Með viljann að vopni
Hildur Hákonardóttir tekur þátt í leiðsögn um sýninguna.

Sunnudag 24. október
Kjarvalsstaðir – Með viljann að vopni
35 ára afmæli kvennafrídags.

Sunnudag 31. október kl. 15
Kjarvalsstaðir – k(v)k – smiðja
og Með viljann að vopni Fjölskylduleiðsögn.

Sunnudag 7. nóvember kl. 15
Kjarvalsstaðir – Með viljann að vopni
Ragnheiður Jónsdóttir tekur þátt í leiðsögn um sýninguna.