Meinlaust er hafið á ný

Vitundarvakningin Meinlaust? í samstarfi við Þroskahjálp er hafin. Henni er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum öráreitni sem fatlað fólk verður fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingum sem öráreitni hefur í för með sér.

Fatlað fólk verður oft fyrir öráreitni sem lýsir sér m.a. með að talað er um og við fullorðið fatlað fólk eins og það sé börn. Hugtakið barnvæðing er notað yfir slíka framkomu. Barnvæðing felur í sér hugmyndir um að fatlað fólk sé ekki hæft til að taka ákvarðanir í eigin lífi. Hún getur birst t.d. í því að tala í barnalegum tón, hrósa fyrir hversdagslega hluti eða taka fram fyrir hendur þess.

Rót barnvæðingar liggur í ableisma sem er hugtak sem lýsir mismunun og fordómum gagnvart fötluðu fólki. Það einkennist af því að fatlað fólk er talið gallað eða minna virði en ófatlað fólk. Það getur verið erfitt að koma auga á ableisma þar sem hann er oft falinn og fatlað fólk á jafnvel erfitt með að benda á hann þar sem ófatlað fólk vill yfirleitt ekki kannast við hann.

Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fatlaðs fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna. Áhersla er lögð á samfélagsmiðla þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust.

Það breytist ekkert ef við lokum augunum fyrir öráreitni og ableisma. Opnum augun og stöndum saman!