Meinlaust - konur af erlendum uppruna í fókus

Það er komið að fjórða og síðasta hluta vitundarvakningarinnar Meinlaust í samstarfi við félagasamtökin Hennar rödd.

Vitundarvakningunni er að þessu sinni ætlað að sýna birtingarmyndir þeirrar öráreitni sem konur af erlendum uppruna verða fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingunum.

Í vitundarvakningunni eru raunverulegar frásagnir kvenna af erlendum uppruna á Íslandi endursagðar í formi myndasagna. Í sögunum sést lítið brot af þeirri öráreitni sem konurnar verða fyrir, sem getur haft skaðleg, varanleg og hættuleg áhrif.

Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum. Hver athöfn, umhverfisþáttur eða athugasemd er ef til vill ekki stórvægileg ein og sér en þegar jaðarsett fólk finnur fyrir slíku reglulega, jafnvel daglega, eykur það álagið sem það verður fyrir samfélagsstöðu sinnar vegna og gerir það jaðarstöðuna áþreifanlega.

Öráreitni er jafnvel stundum ætlað sem hrós og eru þau sem láta slíkt út úr sér oft ómeðvituð um afleiðingarnar. Þess vegna getur verið erfitt að koma auga á öráreitni og jafnvel erfiðara að benda gerendum á að hegðun þeirra hafi skaðleg áhrif.

Vitundarvakningin Meinlaust í samstarfi við Hennar rödd er fjórði og síðasti hluti átaksins þar sem sjónum er beint að ýmsum tegundum og birtingarmyndum öráreitni í samfélaginu.

Fyrsti hluti beindist að birtingarmyndum kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni í samfélaginu. Markmiðið var að fá fólk til að opna augun fyrir sambandi á milli slíkrar hegðunar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki.

Annar hluti var í samstarfi við Samtökin 78. Markmiðið var að vekja athygli á birtingarmyndum öráreitni sem hinsegin fólk verður fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingum slíks öráreitis.

Þriðji hluti var í samstarfi við Þroskahjálp. Markmiðið var að vekja athygli á birtingarmyndum öráreitni í garð fatlaðs fólks og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingum þess.

Fjórði og síðasti hluti er sem fyrr segir í samstarfi við félagasamtökin Hennar rödd. Markmið félagasamtakanna er að auka vitund meðal almennings um stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi.

Vitundarvakningin fer fram á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust.