Merki fyrir jafnlaunastaðfestingu

Merki jafnlaunastaðfestingar verður nú veitt þeim fyrirtækjum sem hafa öðlast staðfestingu samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.

Merkið hefur þann tilgang að auka sýnileika lagaskyldunnar en Jafnréttisstofa lítur einnig svo á að það sé ákveðin viðurkenning fyrir vinnuna að fyrirtæki geti nýtt merkið t.d. á heimasíðum og í kynningarefni.

Merkið er hannað af Dagnýju Reykjalín grafískum hönnuði hjá Blek í samstarfi við Jafnréttisstofu. Það á sér samsvörun við annað kynningarefni tengt jafnlaunastaðfestingu og inni í merkinu er merki Jafnréttisstofu.

Eingöngu Jafnréttisstofa getur veitt fyrirtæki heimild til að nýta merki jafnlaunastaðfestingar og er heimildin afmörkuð við þann tíma sem fyrirtæki eru með gilda jafnlaunastaðfestingu.

Hvað er jafnlaunastaðfesting?

Jafnlaunastaðfesting er staðfesting Jafnréttisstofu á því að lögð hafi verið fram gögn sem sýna fram á það, með fullnægjandi hætti, að launakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar og framkvæmd þess mismuni ekki í launum á grundvelli kyns.

Fyrirtæki þar sem 25-49 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli áttu að hafa uppfyllt lagaskylduna að öðlast jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu eigi síðar en 31. desember 2022.