Milljarður rís

Dansviðburðurinn Milljarður rís verður haldinn um land allt í hádeginu föstudaginn 17. febrúar. Það er UN Women á Íslandi sem stendur fyrir viðburðinum og er markmiðið að vekja fólk til umhugsunar um kynbundið ofbeldi. Í ár verður dansað til minningar um Birnu Brjánsdóttur.

Í Reykjavík verður dansað í Hörpu, á Akureyri í Hofi, í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, Félagsheimilinu á Hvammstanga, Þekkingarsetrinu Nýheimum á Höfn, Frystiklefanum í Rifi og Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. 


Milljarður rís er dansbylting sem haldin er víða um heim. Með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka. Yfir milljarður karla, kvenna og barna kemur saman til að dansa fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem konur þurfa ekki að óttast ofbeldi og áreiti fyrir það eitt að vera konur.

Fólk um land allt er hvatt til að taka höndum saman og berjast gegn kynbundnu ofbeldi með væntumþykju, hlýju og dansi.

Staðreyndir um kynbundið ofbeldi

  • Ein af hverjum þremur konum í heiminum hefur þurft að þola ofbeldi. Ein af hverjum fimm þurft að þola kynferðislegt ofbeldi.
  • 99,3 prósent kvenna og stúlkna á þéttbýlissvæðum í Egyptalandi hafa upplifað kynferðislega áreitni og um helmingur þeirra verður fyrir áreitni daglega.
  • 95 prósent kvenna í Nýju Delí á Indlandi finnst þær ekki öruggar á götum úti. 73 prósent þessara kvenna upplifa ekki einu sinni öryggi í sínu nánasta umhverfi.
  • Um 70 prósent íslenskra kvenna upplifa sig óöruggar í miðborg Reykjavíkur að næturlagi.

Mætum, dönsum og gefum ofbeldi fingurinn!

Viðburðinn má finna á facebook.

#fokkofbeldi