Námskeið Jafnréttisnefndar KÍ og Jafnréttisstofu

Jafnréttisnefnd KÍ og Jafnréttisstofa bjóða grunnskólakennurum upp á hagnýtt námskeið í jafnréttis- og kynjafræðikennslu. Námskeiðið er aðallega hugsað fyrir kennara í efri bekkjum grunnskólans (5.-10. bekk) og hentar fyrir kennara í öllum fögum.

Námskeiðið fer fram fimmtudaginn 18. ágúst kl. 14-16 í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík.

Skráning á námskeiðið fer fram á HÉR
Ekkert þátttökugjald en nauðsynlegt er að skrá sig!

Sjá einnig facebook síðu námskeiðsins HÉR 

Fyrri hluti námskeiðsins er um almenna innleiðslu á grunnþættinum kynjajafnrétti í kennslu og starfi. Markmiðið er að auka meðvitund um mikilvægi jafnréttisfræðslu og kenna grunnatriðin. Kennarar þurfa t.d. að þekkja birtingarmyndir kynjamisréttis og hafa færni til að bregðast við. Rætt verður um lykilhugtök, kynjajafnvægi í kennslubókum, kerfisbundið misrétti, ólíka félagsmótun kynjanna o.fl. Einnig hvernig hægt sé að vinna með viðhorf og tilfinningar nemenda og bregðast við þegar nemendur sýna hver öðrum (ómeðvitaða) kvenfyrirlitningu eða nota kvenfyrirlitningu til að niðurlægja (t.d. strákar við stráka). Farið í greiningu á veruleikanum t.d. í gegnum fjölmiðla, kvikmyndir, tónlistarmyndbönd og orðræðu (s.s. brandara). Hér vinna þátttakendur með sig sjálfa í starfi, sína nemendur og sitt kennslu- og starfsumhverfi.

Kennari: Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari í kynja- og jafnréttisfræðslu.


Seinni hluti námskeiðsins verður vinnustofa þar sem farið verður í kennsluefni sem ætlað er efri bekkjum grunnskóla (5.-10. bekk). Efnið samanstendur af sex æfingum og einu hópverkefni og hver æfing stendur sjálfstætt og því er frjálst að velja og nýta eitt verkefni. Stök æfing gæti átt heima í námsgreinum eins og samfélagsfræði, sögu, íslensku og stærðfræði. Séu verkefnin tekin saman standa þau sem heilt kynjafræðinámskeið þar sem æfingarnar sex miða að því að æfa nemendur í að geta unnið að hópverkefni sem ber heitið „Þetta er ekki æfing“. Námsefnið má skoða á http://grunnskoli.kvenrettindafelag.is/. Hér verða þátttakendur að nemendum, tileinka sér námsefnið og læra að kenna það.

Kennari: Þóra Þorsteinsdóttir, höfundur námsefnisins, kynjafræðingur og grunnskólakennari.