Námskeið um mansal

Endurmenntun Háskóla Íslands stendur fyrir námskeiði um mansal þann 25. september nk. Námskeiðið er haldið í samstarfi við íslenskan samstarfshóp norræna-baltneska tilraunaverkefnisins, sem vinnur að stuðningi, vernd, endurhæfingu og öruggri heimför kvenna sem hafa orðið fyrir mansali. Sú glæpastarfsemi sem er talin vera í hvað örustum vexti í heiminum í dag er mansal, eða verslun með fólk, að því að segir í námskeiðslýsingu Endurmenntunar. Samkvæmt skýrslu greiningadeildar ríkislögreglustjóra frá því í júní 2008 er ástæða til að hafa auknar áhyggjur af mansali, vændi og smygli á fólki til landsins. Vísbendingar eru um að erlendir aðilar komi í auknu mæli að skipulögðu vændi á Íslandi og leikur grunur á að sú starfsemi tengist mansalshringjum.

Námskeiðið mun fjalla um skilgreiningar á mansali, birtingaformi þess, lagaramma ásamt umfjöllun um stöðu mála almennt í heiminum í dag. Einnig verður fjallað um þá vinnu sem unnin hefur verið á Íslandi. Kynnt verður vinna á vegum félagsmálaráðuneytis um gerð sérstakrar aðgerðaráætlunar gegn mansali. Einnig verður fjallað um mikilvægi samstarfs hinna ýmsu aðila sem tengjast mansali og leiðum til að auðvelda að bera kennsl á, skilgreina og vinna með fórnarlömb mansals.

Kennari er Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi, en fyrirlesarar verða m.a. Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur í Alþjóðahúsi, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, Berglind Eyjólfsdóttir lögreglumaður og Þorbjörg I. Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður.


Nánari upplýsingar og skráning hér eða í síma 525-4444.

Vefsíða norræna-baltneska tilraunaverkefnisins (Nordic-Baltic Pilot Project)