Námsstefna um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum

Efnt verður til námsstefnu á vegum þróunarverkefnisins um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum þriðjudaginn 26. maí í Salnum í Kópavogi kl. 13:30. Á námsstefnunni verða kynnt tíu verkefni sem nýst geta til jafnréttisstarfs í skólum. Námsstefnan í Salnum í Kópavogi 26. maí er kjörinn vettvangur fyrir alla sem vilja fræðast um jafnrétti í skólastarfi. Hún er öllum opin og eru skólastjórnendur, kennarar, foreldrar, fulltrúar fræðslunefnda, fulltrúar jafnréttisnefnda starfsmenn skólaskrifstofa, sveitarstjórnarmenn og stjórnmálamenn sérstaklega hvattir til að mæta.

Þróunarverkefnið jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum á rætur að rekja til norræns samstarfs í jafnréttismálum og er byggt á danskri fyrirmynd. Markmiðið með verkefninu er að auka og efla jafnréttisfræðslu í leikskólum og grunnskólum landsins. Að verkefninu standa félags- og tryggingamálaráðuneytið, Jafnréttisstofa og fimm sveitarfélög: Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Mosfellsbær og Akureyrarbær. Menntamálaráðuneytið styður verkefnið og leggur framkvæmd þess lið ásamt Jafnréttisráði og fjölmörgum styrktaraðilum

Sérstakur gestur námsstefnunnar er Louise Windfeldt, höfundur bókarinnar Den dag Frederik var Frida / Den dag Rikke var Rasmus sem nú hefur verið gefin út í íslenskri þýðingu í tilefni af degi barnsins 24. maí.
Bókin sem á íslensku heitir Þegar Friðrik var Fríða / Þegar Rósa var Ragnar þykir mæta brýnni þörf fyrir gott og aðgengilegt fræðsluefni um jafnréttismál fyrir yngstu börnin.

Dagskrá námsstefnunnar má finna hér.