Nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneyta Stjórnarráðs Íslands

Út er komin skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Í skýrslunni er að finna greiningu á kynjaskiptingu í nefndum, stjórnum og ráðum á starfsárinu 2011 og 2012. Árið 2008 var leiddur í lög kynjakvóti í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og hefur Jafnréttisstofa haft eftirlit með framkvæmd hans. Kynjakvótinn, sem kveðið er á um í 15 grein laga nr. 10/2008, gerir ráð fyrir að hlutur hvors kyns um sig skuli ekki vera minni en 40% nema hlutlægar ástæður heimili annað.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru: 

  • Hlutfall kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum árið 2011 var 43% konur 57% karlar. 
  • Hlutfall kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum árið 2012 var 44% konur 56% karlar.
  • Hlutfall kynjanna í nýjum nefndum, stjórnum og ráðum sem skipuð voru á starfsárinu 2011 var 43% konur 57% karlar.
  • Hlutfall kynjanna í nýjum nefndum, stjórnum og ráðum sem skipuð voru á starfsárinu 2012 var 44% konur 56% karlar. 
  • Bæði árin voru 58%  starfandi nefnda, stjórna og ráða skipuð í samræmi við 15. greinina. 
  • Árið 2011 voru skipuð 169 nefndir, stjórnir og ráð. Af þeim voru 123 eða 73% skipuð í samræmi við 15. greinina.
  • Árið 2012 voru skipuð 148 nefndir, stjórnir og ráð. Af þeim voru 100 eða 68% skipuð í samræmi við 15. greinina. 
  • Ráðuneytum gengur misvel að skipa í samræmi við 15. greinina. Sum ráðuneyti ná að skipa allar sínar nefndir, stjórnir og ráð í samræmi við lögin en öðrum tekst eingöngu að skipa 58% nefnda, stjórna og ráða í samræmi við 15. greinana. 
Ljóst er að áfram þarf að vinna markvisst að því að skipa konur og karla til jafns í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna. Jafnréttisstofa hefur unnið í samstarfi við ráðuneytisstjóra og jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna að því að finna leiðir til jafna hlutfallið frekar en farið er yfir það í skýrslunni.

Skýrsla Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna 2011 og 2012