Norrænar jafnréttisstofnanir funda í Reykjavík

Árlegur (lokaður) fundur jafnréttisstofnana á Norðurlöndunum verður haldinn í Reykjavík 5.-6. september. Að þessu sinni verða aðalumræðuefnin staða og hlutverk félagasamtaka í mannréttindabaráttu og hatursorðræða í netmiðlum. Þá verða einnig kynntar nýlegar úttektir Norðmanna á skipulagi og stefnu þeirra hvað varðar jafnrétti kynjanna.Félagasamtök hafa löngum gegnt stóru hlutverki í hvers kyns mannréttindabaráttu. Þar má t.d. nefna samtök kvenna sem eiga sér meira en hundrað ára sögu hér á landi, samtök fatlaðra, samkynhneigðra, aldraðra og fólks af erlendum uppruna að ekki sé minnst á verkalýðshreyfinguna sem á rætur að rekja aftur á 19. öld. Hvernig er búið að félagasamtökum á Norðurlöndunum, er hlustað á þau, hvernig er aðkoma þeirra að stefnumótun og ákvarðanatöku tryggð, hver eru áhrif þeirra og hvað má betur fara. Um þetta verður fjallað á fundinum. Þá verður sjónum beint að vaxandi hatursorðræðu, einkum í netmiðlum, en hún hefur verið mikið til umræðu um öll Norðurlönd. Hatursorðræðan beinist að mismunandi hópum, einkum þó femínistum, fólki af öðrum þjóðaruppruna eða kynþætti og svo samkynhneigðum og transfólki. Hvernig er hægt að bregðast við?

Jafnréttisstofnanir á Norðurlöndunum eru af ýmsu tagi. Í Noregi er eitt umboð jafnréttismála og hvers kyns mismununar (LDO), Í Svíþjóð er einnig einn umboðsmaður gegn hvers kyns mismunun (DO), í Finnlandi eru þeir tveir, annars vegar vegna kynjajafnréttis, hins vegar vegna minnihlutahópa. Í Danmörku sér danska Mannréttindastofnunin um jafnréttismál á breiðum grunni og þar starfar sérstök kærunefnd. Í Færeyjum og á Grænlandi starfa Jafnréttisráð sem fjalla um jafnrétti kynjanna. Eins og kunnugt er vinnur Jafnréttisstofa að jafnrétti kynjanna hér á landi í samræmi við jafnréttislög (nr. 10/2008). Það er því afar gagnlegt að jafnréttisstofnanir beri saman bækur og miðli upplýsingum um þær breytingar og þróun sem eiga sér stað á Norðurlöndunum.

Frekari upplýsingar veitir Kristín Ástgeirsdóttir, kristin@jafnretti.is