Norrænt málþing um fæðingarorlof feðra

Útvarpsviðtal við Hugrúnu í Kringvarpinu
Útvarpsviðtal við Hugrúnu í Kringvarpinu

Í síðustu viku var haldið málþing í Færeyjum undir yfirskriftinni „Hvussu hava pápar í Norðurlondum tað?“ sem á íslensku væri „Hvernig hafa pabbar á Norðurlöndum það?“ Á málþinginu voru kynntar niðurstöður rannsóknarinnar „State of Nordic Fathers“. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 90 prósent feðra á Norðurlöndum vilja taka ríkan þátt í umönnun barna sinna og að eyrnamerkt feðraorlof er öflug leið til að breyta hefðbundnum venjum s.s. verkaskiptingu kynja á heimilum og viðhorfi foreldra til hlutverks feðra og karlmanna almennt.

Athygli vekur að yfir 70% mæðra og feðra á Norðurlöndum telja að fæðingarorlofið eigi að skiptast jafnt milli foreldra. Þessi afgerandi stuðningur við jafna þátttöku og skiptingu fæðingarorlofs stangast á við veruleikann, þar sem norrænir feður taka enn að meðaltali ekki nema 20 prósent af fæðingarorlofinu í heild.

Að lokinni kynningu á niðurstöðum rannsóknarinnar tóku við pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Grænlandi og Íslandi. Hugrún R. Hjaltadóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, tók þátt í pallborðinu fyrir hönd Íslands. Svaraði hún spurningum um reynslu Íslendinga af fæðingarorlofi feðra en feður á Íslandi njóta víðtækari réttar fæðingarorlofs en feður á hinum Norðurlöndum og taka þeir lengst fæðingarorlof. Niðurstöður rannsókna á Íslandi eru í samræmi við niðurstöður þessarar rannsóknar og mikilvægt að halda áfram að finna jákvæðar leiðir til þess að jafna hlut kynjanna þegar kemur að ábyrgð á heimilum, umönnun og þátttöku í atvinnulífinu.

Norrænt málþing um fæðingarorlof feðra