Norrænt samstarf um dagatal á vefnum

Glöggir lesendur heimasíðu Jafnréttisstofu hafa tekið eftir því að dagatal stofunnar hefur verið að taka breytingum. Ástæðan er sú að Jafnréttisstofa hefur tekið upp samstarf við norrænt dagatal til að kynna atburði á sviði jafnréttis kynjanna. Um er að ræða vefgátt þar sem atburðir á dagatal Jafnréttisstofu sjást einnig á norræna dagatalinu GenderKalenderN. Jafnréttisstofa hvetur alla sem eru að skipuleggja atburði sem tengjast jafnrétti kynja til að hafa samband og auglýsa viðburði sína á þessum nýja vettvangi.Inn á GenderKalenderN koma inn allir atburðir sem Jafnréttisstofa setur inn á sitt dagatal auk þeirra atburða sem samstarfsaðilar setja inn. Áhersla er á að kynna viðburði í hverju landi fyrir sig á því tungumáli sem þeir eru á. Viðburðirnir eru mjög fjölbreyttir allt frá því að vera stuttir fyrirlestrar yfir í að vera margra daga fjölþjóðlegar ráðstefnur auk fjölda funda, málþinga, námskeiða, menningarviðburða s.s. tónleika og sýningar og fleira. 

Útlitið á dagatali Jafnréttisstofu kemur ekki til með að breytast. Áfram verður hægt að sjá viðburði líðandi stundar undir „Á döfinni“ á hægri væng heimasíðunnar og ef „Skoða dagatal“ er valið kemur upp mánaðar yfirlit. Þegar smellt er á einstakan viðburð opnast nánari lýsing á atburðinum inn í hinum norræna GenderKalenderN. 

Samstarfið er með þrjár sameiginlegar gáttir GenderKalenderN, GenderJob and GenderFund. Hinar tvær gáttirnar, GenderJob og GenderFund, eru í grundvallaratriðum eins en vinna með önnur þemu. GenderJob miðlar starfsauglýsingum þar sem auglýst er eftir fólki í störf sem tengjast jafnrétti kynja bæði á Norðurlöndum og annarstaðar. GenderFund miðlar styrkauglýsingum. Þar er að finna auglýsingar frá rannsóknarsjóðum og verkefnasjóðum auk þess sem námstyrkir eru einnig auglýstir þar.  Þó svo að Jafnréttisstofa birtir ekki upplýsingar úr þessum gáttum á heimasíðu sinni getur Jafnréttisstofa sett efni þar inn. 

Aðrir samstarfsaðilar um vefgáttirnar eru the Danish Centre for Gender, Equality and Diversity (Kvinfo), the Information Centre for Gender Research in Norway (Kilden), the Centre for Gender Equality information in Finland (Minna), the Swedish Secretariat for Gender Research (NIKK). 

Jafnréttisstofa hvetur alla til að kynna sér þessar þrjár áhugaverðu upplýsinga gáttir og hvetur jafnframt alla sem skipuleggja atburði, auglýsa störf eða bjóða upp á styrki sem tengjast jafnrétti kynja til að hafa samband og kynna sig á þessum nýja vettvangi.