Ný álit kærunefndar jafnréttismála

Álit kærunefndar jafnréttismála um kæru á hendur iðnaðarráðuneytinu, vegna skipunar í embætti orkumálastjóra, var birt á vefnum réttarheimild.is í gær. Ekki var talið að um brot hefði verið að ræða. Kærunefnd jafnréttismála hefur sent frá sér álit í þremur kærumálum frá því að ný kærunefnd var skipuð í maí sl. Öll þrjú málin vörðuðu stöðuveitingar og komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu í öllum málunum að ekki hefði verið brotið gegn jafnréttislögum.

Það sem af er árinu 2008 hefur kærunefnd jafnréttismála sent frá sér álit í sex kærumálum, þar af fjórum málum sem varða stöðuveitingar, og hefur nefndin í öllum tilfellum álitið að ekki væri um brot á lögunum að ræða. Rúmlega helmingur af álitsgerðum kærunefndar jafnréttismála undanfarinn áratug varðar stöðuveitingar. Álitum þar sem nefndin telur að jafnréttislögin hafi verið brotin við stöðuveitingar hefur fækkað hlutfallslega allt frá árinu 2004.

Nýjustu álit kærunefndar jafnréttismála er að finna hér.