Ný upplýsingasíða aðgerðahóps um launajafnrétti

Aðgerðahópur stjórnvalda um launajafnrétti hefur opnað upplýsingasíðu á vefsvæði velferðarráðuneytisins.

Í aðgerðahópnum sitja aðilar vinnumarkaðarins og hefur hópurinn það verkefni að vinna að samræmingu launarannsókna, gera áætlun um kynningu jafnlaunastaðals ásamt því að vinna að upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja. Upplýsingasíðuna má sjá HÉR

Forsaga skipunar aðgerðahópsins er sú að í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem ætlað var að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti kynja og vinna að aðgerðaáætlun stjórnvalda sem birt var haustið 2012. Ein af tillögum í aðgerðaáætluninni er skipan aðgerðahóps sem hefur það hlutverk að  vera samstarfs- og samráðsvettvangur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Þann 24. október 2012 undirrituðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins viljayfirlýsingu um samstarfið og í desember sama ár var aðgerðahópurinn skipaður. Formaður aðgerðahópsins er Anna Kolbrún Árnadóttir.