Nýtt Jafnréttisráð skipað

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur skipað níu manna Jafnréttisráð í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Skipunin gildir til næstu alþingiskosninga.

Formaður Jafnréttisráðs er Hildur Jónsdóttir jafnréttisráðgjafi. Aðrir í ráðinu eru Maríanna Traustadóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Þórveig Þormóðsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Björn Rögnvaldsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, Ólafur Pétur Pálsson, tilnefndur af Háskóla Íslands, Una María Óskarsdóttir, tilnefnd af Kvenfélagasambandi Íslands, Þorbjörg I. Jónsdóttir, tilnefnd af Kvenréttindafélagi Íslands, Svandís Svavarsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Hörður Vilberg, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins.

Jafnréttisráð er stjórnvöldum til ráðgjafar um jafnréttismál í vinnumarkaðsmálum og er meðal annars ætlað að stuðla markvisst að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaðnum. Ráðið skal gera tillögur til félagsmálaráðherra um aðgerðir á þessu sviði en jafnframt getur ráðið gert tillögur um úrbætur í jafnréttismálum á öðrum sviðum samfélagsins.