OECD: Ísland gegni leiðandi hlutverki í innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar

Íslensk stjórnvöld eru reiðubúin til samvinnu við Efnahags- og framfarastofnunina, OECD, til þess að ná markmiðum um kynjajafnrétti, hérlendis sem og innan vébanda OECD. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra undirrituðu í dag. OECD hefur óskað eftir að Ísland gegni leiðandi hlutverki í innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar hjá stofnuninni. Að ósk OECD var stofnfundur sérfræðihóps stofnunarinnar um kynjaða fjárlagagerð sem fram fór í maí, haldinn á Íslandi í ljósi leiðandi stöðu landsins í málum sem snúa að jafnrétti kynjanna.

Í yfirlýsingunni, sem hefur verið send Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD, kemur fram að ríkisstjórnin styðji markmið um jafnrétti kynjanna á alþjóðavettvangi. Ánægjulegt sé að fá að vinna með OECD að því að styrkja og breiða út það sem hefur áunnist hér á landi í jafnréttismálum og leggja lið á alþjóðavettvangi með því að taka virkan þátt í starfi OECD á þessu sviði.

Íslensk stjórnvöld hvetja OECD til söfnunar og greiningar gagna sem kemur að góðum notum við samhæfingu stefnu í opinberri stjórnsýslu og fjárlagagerð með tilliti til kynjaáhrifa.

„Við sjáum fram á að gagnlegt verði að nýta samstarf við OECD til þess að draga úr kynjamisrétti í okkar þjóðfélagi, en þótt margt hafi áunnist í jafnréttismálum hér á landi, t.d. hvað snertir launajafnrétti, fæðingarorlof og fjölgun kvenna í áhrifastöðum, er ljóst að kynjaójöfnuður er enn til staðar,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra við undirrituna.

Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra sagði að íslensk stjórnvöld fagni því tækifæri sem felist í að leiða umræðu um kynjaða fjárlagagerð innan OECD. „Þar munum við ekki síst huga að launajafnfrétti og því mikilvæga verkefni að fá karla til þess að taka þátt í jafnréttisstarfi,“ sagði ráðherra.

„Við teljum að þessar ábendingar komi að gagni í undirbúningsvinnu OECD fyrir væntanlegan fund ráðherraráðs OECD, þar sem styrking kynjajafnréttis verður mikilvægur þáttur í umræðunni,“ segir ennfremur í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda.

Fréttin birtist á vef Velferðarráðuneytisins þann 2. júní 2017