Ofbeldi gegn börnum - hlutverk skóla

Út er komin handbókin Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla. Markmiðið með útgáfunni er að upplýsa kennara og annað starfsfólk skóla um einkenni og áhrif ofbeldis á börn og að vekja athygli á forvörnum, inngripi og úrræðum sem eru til staðar til að tryggja sem best velferð nemenda.
Bókin var unnin af Námsgagnastofnun fyrir Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Höfundar eru Guðrún Kristinsdóttir prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Nanna Kristín Christiansen verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. 

Vitundarvakningin á rætur að rekja til fullgildingar íslenskra stjórnvalda, árið 2012, á samningi Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu barna sem samþykktur var á Lanzarote árið 2007. Samningurinn miðar að því að vernda og styrkja stöðu barna sem hafa mátt þola kynferðislegt ofbeldi í einni eða annarri mynd.

Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum varðandi ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn.