Ofbeldi gegn fötluðum konum

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir verkefnastýra hjá Tabú heimsótti Akureyri laugardaginn 6. desember og hélt áhugavert erindi á Amtsbókasafninu þar sem hún fjallaði um ofbeldi gegn fötluðum konum. Meðal þess sem fram kom í máli Emblu, og vakti sérstaka athygli áheyrenda, var að enn í dag eru fatlaðar konur gerðar ófrjóar án þeirra samþykkis.
Rannsóknir sýna að konur með fötlun eru í sérstakri áhættu hvað ofbeldi varðar og í erindi sínu fjallaði Embla um samfélagslega stöðu fatlaðra kvenna, birtingarmyndir ofbeldis, helstu áhrifaþætti og afleiðingar.

Embla talaði af eigin reynslu og velti meðal annars fyrir sér hvað sé til ráða. Nefndi hún meðal annars fræðslu og mikilvægi þess að stuðla að viðhorfsbreytingu í samfélaginu. Sjálf hefur Embla farið víða með fyrirlestra og fræðslu. Nýverið hlaut hún, ásamt móður sinni, „Múrbrjótinn“ og hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands fyrir erindið „Af hverju er barnið mitt ekki úti að éta sand?“. Erindið sem byggir á reynslu þeirra mæðgna af skólagöngu Emblu hafa þær flutt fyrir tæplega tvöþúsund áheyrendur.

Að loknu erindi Emblu á Amtsbókasafninu las Martha Elena Laxdal upp úr skýrslu sem Velferðarráðuneytið lét vinna  um ofbeldi gegn fötluðum konum. Skýrsluna má finna hér