Ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf – önnur og þriðja vaktin rannsakaðar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja undirbúning að rannsókn á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstöfum, sem stundum nefnast önnur og þriðja vaktin.

Í frétt á heimasíðu stjórnarráðsins er fjallað ítarlega um nýja árlega stöðuskýrslu um kortlagningu kynjasjónarmiða og í henni eru dregnar fram fjölmargar áskoranir í jafnréttismálum. Er þeim skipt upp í fjögur þemu:

  • Kynskiptur vinnumarkaður
  • Launamunur kynjanna
  • Ólaunuð heimilis- og umönnunarstörf
  • Kynjamunur á heilsu og líðan

Í skýrslunni kemur einnig fram að á heimsvísu eru 75% ólaunaðrar vinnu við umönnun og heimilisstörf í höndum kvenna og stúlkna. Rannsókn á þessum þáttum er því afar mikilvæg og mundi hún fanga kynjaðan raunveruleika á betri hátt en áður hefur verið gert.

Undanfarið hefur orðið meiri vakning á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum. Stéttarfélagið VR fór meðal annars af stað með herferð um þriðju vaktina og er hægt að nálgast ýmist efni inn á heimasíðunni þeirra. Þar eru útskýringar á hugtökum, dæmisögur, myndbönd og margt fleira.

Einnig er vert að benda á að í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna ber vinnustöðum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri að setja sér jafnréttisáætlun þar sem meðal annars á að fjalla um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og þar er tekið fram að atvinnurekendur skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni.